Áfengi er vímuefni sem leitt getur til alvarlegra sjúkdóma, meðal annars áfengisfíknar. Áfengisfíkn getur leitt til afar mikillar líkamlegrar og andlegrar fíknar sem að ýmsu leyti minnir á kókaínfíkn og heróínfíkn.


Mat á áfengisfíkn

Við mat á áfengisfíkn er stuðst við spurningarlista og skilgreiningar. Samkvæmt klínískum leiðbeiningum frá Embætti landlæknis má greina áfengisneyslu í þrjú stig:

  • Áhættusöm áfengisneysla þar sem miðað er við 21 einingu af áfengi á viku fyrir karla og 14 einingar fyrir konur.
  • Skaðleg áfengisneysla sem greind er samkvæmt ICD-10 F10.1 (DSM-V: (mild) alcohol use disorder 305.0) 
  • Að lokum er áfengisfíkn sem greind er samkvæmt ICD-10 F10.2 (DSM-V: (moderate/severe) alcohol use disorder 303.9)

 

Áfengisfíkn 

Þegar einstaklingur telst með áfengisfíkn hefur neysla áfengis tekið forgang yfir aðra hegðun sem áður skipaði sess í lífi hans. Áfengisfíkn er heilkenni þar sem saman fara sálræn, líkamleg og atferlisleg einkenni. Greiningin er aðeins gefin ef til staðar eru a.m.k. þrjú af eftirfarandi einkennum (ICD-10):

  • Sterk löngun og fíkn í að neyta áfengis.
  • Skert geta til að stjórna neyslu áfengis.
  • Líkamleg fráhvarfseinkenni þegar neysla áfengis er minnkuð eða alveg hætt (skjálfti, svitamyndun, hraður hjartsláttur, kvíði, svefnleysi og stundum krampar, rugl eða ofskynjanir) eða að drukkið er til að létta eða koma í veg fyrir fráhvarfseinkenni.
  • Aukið þol þannig að meira magn af áfengi þarf til að fá fram sömu áhrif og áður fengust með minna magni.
  • Vaxandi vanræksla mikilvægra þátta tilverunnar vegna áfengisneyslu og aukins tíma sem fer í að afla, neyta eða ná sér eftir áfengisneyslu.
  • Áfengisneyslu er haldið áfram þrátt fyrir meðvitund um að neyslan sé farin að vera einstaklingnum skaðleg.