Áfengi er engin venjuleg neysluvara og ber því að umgangast og ræða áfengi út frá þeim forsendum. Áfengi og neysla þess á oft djúpar rætur í menningu margra þjóða og er um leið atvinnuskapandi t.d. á vínekrum og framleiðslu áfengis. Áfengi er einnig tekjuskapandi t.d. í formi áfengisgjalda og útflutningstekna. En ábatinn getur verið samfélaginu afar dýrkeyptur og valdið líkamlegu, andlegu og samfélagslegu tjóni. Áfengisneysla hefur löngum verin talin einkamál þess sem drekkur en er hún það?

 

 • Áfengi er þriðji stærsti áhættuþáttur í heiminum fyrir ótímabær dauðsföll.

 

Áfengi og áfengisneysla er skaðleg, bæði fyrir þann sem drekkur og fyrir aðra í umhverfinu. Áfengisneysla er einn af leiðandi áhættuþáttum í heiminum fyrir slæma heilsu og ótímabær dauðsföll, sérstaklega í aldurshópnum 25-59 ára. Áfengisneysla er einn af fjórum leiðandi áhættuþáttum við þróun langvinnra sjúkdóma eins og krabbameins og hjarta- og æðasjúkdóma. Stærsti hluti þeirrar samfélagslegu byrði af völdum áfengis er vegna ótímabærra dauðsfalla og örorku. Það getur átt við bæði neytandann og þriðja aðila.

 

 • Áfengisneysla hefur áhrif á ofbeldi, vanrækslu og misnotkun, sambandsslit, afbrot, ónæði, vinnuslys og skert vinnuframlag.

 

Í nýrri aðgerðaráætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um áfengi segir m.a.: „Sérhvert ríki hefur bæði rétt og skyldu til að veita þegnum sínum mikla vörn gegn skaða af völdum áfengisneyslu. Einkum gagnvart skaða af völdum drykkju annarra og skaða gagnvart berskjölduðum hópum, svo sem börnum“

 

 • Algengasti skaði þriðja aðila kemur til vegna umferðaslysa: farþegar eða aðrir ökumenn slasast eða látast vegna ölvaðs ökumanns.
 • Næst algengast er líkamlegt ofbeldi eða morð þar sem gerandi er undir áhrifum áfengis.
 • Einnig er lág fæðingarþyngd vegna áfengisneyslu móður algengur fylgikvilli.

 

Áfengisneysla  hefur áhrif á fjölskylduna, vinnuna, vini og aðra ókunnuga. Konur verða meira fyrir áhrifum heima fyrir og ungar konur 18-29 ára verða mest fyrir áhrifum af völdum áfengisneyslu annarra. Menn verða mest fyrir áhrifum áfengisneyslu vina eða vinnufélaga. Til að átta sig á umfanginu er hér einföld mynd af því hvernig áfengisneysla einstaklings getur haft áhrif á aðra.


Ahrifaadra _graen (2)
Dæmi um afleiðingar áfengisneyslu á þriðja aðila – óbein áhrif áfengisneyslu. Byggt á Room; Ferris; Laslet et al. , 2010

Reynt hefur verið að setja verðmiða á samfélagslegan kostnað og hefur viðmið verið sett á 3-5% af vergri þjóðarframleiðslu.

 

Ísland:

Í meistararitgerð Ara Matthíasarsonar um Þjóðfélagslega byrði af áfengis- og vímuefnaneyslu kemur m.a. eftirfarandi fram:

 • 48% af öllum banaslysum í umferðinni 2004-2008 má rekja til ölvunar og 28% af öllum umferðarslysum.
 • Einstaklingur er líklegri til að fá fangelsisdóm ef viðkomandi er með áfengis- eða vímuefnavanda.
 • Rúm 22% sjúklinga á Vogi 2008 þáðu örorkubætur.
 • 51% sem komu á bráðamóttöku LSH um helgar voru undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna.
 • 32% þeirra sem komu á Vog árið 2008 höfðu hlotið dóm.
 • 14% innlagaðra sögðust hafa framið afbrot síðustu 30 daga.

Þar kemur fram að kostnaðurinn sé á bilinu 53 til 85 miljarðar á ári.

 

Í könnun á áfengisneyslu Íslendinga frá 2013 kemur m.a. fram að 1,1% aðspurðra hafa orðið fyrir eða valdið meiðslum eða slysum á síðastliðnum 12 mánuðum vegna eigin áfengisneyslu en það eru ríflega 3,580 manns. Um 7,2% höfðu svo einhvern tímann orðið fyrir eða valdið meiðslum eða slysum, þó ekki á síðastliðnum 12 mánuðum. Í heildina eru það um 8,3% eða rétt rúmlega 27,000 manns.

H 2oafengi _nytt (1)

Árið 2013 höfðu um 47% einhvern í sínu nánasta umhverfi, fjölskyldumeðlim, fyrrverandi maka, vin eða vinnufélaga, sem hafði drukkið of mikið áfengi einu sinni eða oftar á síðustu 12 mánuðum. Um 60% sögðu að það hafi haft neikvæð áhrif á sig, heldur fleiri konur en karlar. Nánast enginn munur var milli aldurflokka eða hvort þau byggju á höfuðborgarsvæðinu eða ekki hvað þetta varðaði.

 

Mesti munur sem á niðurstöðum milli kannanna snýr að skemmtistöðum. Um 13% þátttakenda árið 2001 höfðu orðið fyrir áreitni eða ónæði af hendi drukkins fólks á skemmtistöðum eða í einkasamkvæmum á síðastliðnum 12 mánuðum samanborið við 30% árið 2013. Nánast enginn munur var á milli kynja eða búsetu en yngri höfðu frekar orði fyrir áreitni en þeir sem eldri voru.


_nytth 2oonaedi

Árið 2001 höfðu rúmlega 25% þátttakenda orðið fyrir áreitni eða ónæði af hendi drukkins fólks úti á götu eða almannafæri á síðastliðnum 12 mánuðum og nánast sama hlutfall árið 2013. Árið 2001 höfðu rúmlega 15% þátttakenda sögðust hafa orðið hrædd vegna áfengisneyslu annarra úti á götu eða almannafæri á síðastliðnum 12 mánuðum samanborið við 21% árið 2013. Konur, íbúar höfuðborgarsvæðisins og frekar yngri en eldri voru líklegri að hafa orðið hrædd. Tæplega helmingur eða 46% á aldrinum 18 til 24 ára svöruðu þessari spurningu játandi.

 

Niðurstaðan er því sú að áfengi hefur skaðleg áhrif á aðra en neytandann sjálfan, hvort sem það er með ofbeldi, óhöppum, heimilsofbeldi eða öðrum hætti, t.d. aukinn kostnaður í velferðarþjónustu.

 

Áfengisneysla er því alls ekkert einkamál.