Áfengi, eins og önnur vímuefni, hefur áhrif á miðtaugakerfi og er í raun sljóvgandi vímuefni. Ýmsar aukaverkanir fylgja neyslu áfengis, t.d. víkkun æða, aukin þvaglát, aukin saltsýrumyndun í maga og breytingar í fituefnaskiptum.

Áfengi leysist upp í meltingarveginum, um það bil 10-20% strax í maganum og afgangurinn í mjógirninu. Matur hefur því áhrif á hversu auðveldlega áfengi kemst í æðakerfið og út til líffæranna. Í meltingarveginum eru efnahvatar sem brjóta niður áfengi áður en það kemst út í blóðið. Lifrin gegnir því hlutverki að losa líkamann við áfengi og gerir það með því að umbreyta því í önnur efni. 2014hjarta_hlust
Starfssemi lifrarinnar er stöðug og sami hraði helst á efnaskiptunum, jafnvel þótt áfengi í blóðinu aukist. Lifrin brýtur því alltaf niður sama magn af áfengi og ekki er hægt að hraða starfsemi hennar með til að mynda gönguferð, kaffidrykkju, eða sturtu. Lifrin losar líkamann við um 90% af áfenginu á þennan hátt og einungis 5-10% af áfenginu er skilað óbreyttu úr líkamanum gegnum öndun, þvaglát og/eða svita. Sýnt þykir að áfengismagnið í fráönduninni sé stöðugt og í réttu hlutfalli við áfengismagnið í blóðinu. Áfengi getur mælst í blóði um það bil 5 mínútum eftir að það er drukkið.


Rekja má  fjölda alvarlegra sjúkdóma til langvarandi áfengisneyslu, þ.á.m. alvarlegar og jafnvel banvænar skemmdir á lifrinni, meltingartruflanir, ýmsir geðrænir kvillar og aukin hætta á hjartasjúkdómum og ýmsar tegundir af krabbameini m.a. krabbamein í meltingarvegi og sérstakleg á brjóstakrabbameini hjá konum. Þetta á sérstaklega við um þegar áfengisneyslan telst vera meiri en hófdrykkja eða við áfengissýki.

Sjúkdómar sem rekja má til áfengisneyslu eða áfengi hefur áhrif á

 • Taugasjúkdómar: flogaveiki, heilabilun og ellihrörnun.
 • Sjúkdómar í meltingarvegi: sár í vélinda, skorpulifur og brisbólgur.
 • Efnaskiptasjúkdómar: sykursýki.
 • Krabbamein: m.a. í munni, hálsi, vélinda, barkakýli, lifur og brjósti.
 • Hjarta og æðasjúkdómar: hækkaður blóðþrýstingur, kransæðasjúkdómar, heilablóðfall og truflun á hjartslætti.
 • Ónæmiskerfið: aukin næmi fyrir smitsjúkdómum.
 • Lungnasjúkdómar: lungnabólga, berklar.
 • Stoðkerfið: beinþynning.
 • Fósturskaðar og skert frjósemi.


2014andlit_hud

Áhrif áfengis á útlitið

Of mikið áfengi getur haft áhrif á það hvernig þú lítur út daginn eftir – og í framtíðinni. Áfengi getur verið fitandi. Í reiknivélinni getur þú reiknað hversu margar kaloríur eru í drykknum þínum.

 • Áfengi og húðin

Áfengi er vatnslosandi og getur þess vegna þurrkað upp líkama þinn, þar á meðal húðina sem er stærsta líffæri líkamans. Þetta gerist í hvert einasta skipti sem þú drekkur. Of mikil áfengisneysla  er  talin geta  komið í veg fyrir að húðin fái mikilvæg vítamín og næringarefni.

Rósroði er langvinnur húðsjúkdómur sem hefur verið tengdur m.a. við áfengisneyslu. Sjúkdómurinn veldur roða og bólgu, aðallega í andliti. Þeir sem hafa rósroða verða fyrst varir við tilhneigingu til að roðna auðveldlega. Það fer síðan versnandi með tímanum og veldur því oft að á mismunandi löngum tíma verður viðkomandi alltaf rauður, fær oft bólur og æðar verða áberandi, sérstaklega í andliti. Sjúkdómurinn leitt til afmyndunar  andlits á einhvern hátt. Einkenni eru mismunandi hjá þeim sem hafa rósroða og geta verið mis slæm. Þegar sjúkdómurinn er langt genginn er mun erfiðara að meðhöndla hann. Þess vegna er mikilvægt að koma sem fyrst til húðlæknis.

 • Þrútnað

Áfengi getur líka gert það að verkum að andlitið á þér virkar þrútið eða uppblásið. Þetta getur líka átt við um maga, hendur, fætur.......

 • Útlit og lykt

Já það er fleira, því miður. Fólk með timburmenn lyktar ekkert sérstaklega vel: lifrin vinnur úr mestu af því áfengi sem þú drekkur en sumt fer beint úr líkamanum gegnum andardrátt, með svita og þvagi. Miklar líkur eru á að vera glaseygður eða rauðeygður og ef það gleymist að þrífa farða af andliti eru mun meiri líkur á að fá bólur.

Af hverju ekki að minnka áfengisneysluna og viðhalda góðu útliti?