07. október 2015

Skráargatið

Skráargatið – Einfalt að velja hollara

Skráargatið er opinbert næringarmerki sem gerir það auðveldara að velja hollari matvörur þegar keypt er inn. Kröfur til matvæla, sem fá merkið, byggjast á viðurkenndum atriðum er snerta samhengi næringar og heilsu. Neytendur geta þá treyst því að vara sem ber merkið sé hollari en aðrar vörur í sama flokki sem ekki uppfylla skilyrði til að bera merkið. Auk þess að vera upplýsandi fyrir neytendur hvetur slíkt merki matvælafyrirtæki til að þróa hollari vörur.

Val þitt á matvörum hefur áhrif á heilsu þína

Matvörur sem bera Skráargatið verða að uppfylla ákveðin skilyrði varðandi t.d. fitu, sykur, salt, trefjar og heilkorn. Skráargatið auðveldar því valið á hollari matvörum og þar með að fara eftir ráðleggingum Embættis landlæknis um mataræði og næringarefni.

  • Minni og hollari fita
  • Minni sykur
  • Minna salt
  • Meira af trefjum og heilkorni

 

Skráargatið er samnorrænt opinbert næringarmerki

Skráargatið hefur verið í notkun í Svíþjóð í yfir 20 ár og er orðið vel þekkt þar í landi. Árið 2009 var merkið einnig tekið upp í Noregi og Danmörku og varð þannig að samnorrænu opinberu næringarmerki en skilgreiningarnar á bak við Skráargatið voru þróaðar áfram og eru enn í þróun. Slíkt samstarf er í samræmi við þróunina almennt á sviði næringar í norrænu löndunum, t.d. eru öll Norðurlöndin með samnorrænar næringarráðleggingar (e. Nordic Nutrition Recommendations). Reglugerð um upptöku merkisins tekur gildi haustið 2013. Á Íslandi bera Matvælastofnun og Embætti landlæknis ábyrgð á Skráargatinu og Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga sjá um að farið sé eftir reglum um notkun merkisins. Framleiðendum er frjálst að nota Skráargatið á þær vörur sem uppfylla skilyrði til að bera merkið.

Sjá nánar á HÉR

 

Twitter
Til baka