Dagatal
Allir ættu að stunda daglega hreyfingu og góðar matarvenjur, óháð holdafari.
 

Dagleg hreyfing er mikilvæg fyrir alla, óháð holdafari

Hreyfing stuðlar að fjölþættum ávinningi fyrir heilsu og meiri vellíðan. Við hreyfingu liðkast liðamót og það losnar um andlega og líkamlega spennu auk þess sem líkaminn fær súrefni og næringarefni og losnar við úrgangsefni. Með daglegri hreyfingu er unnt að viðhalda og bæta líkamshreysti, svo sem afköst lungna, hjarta og æðakerfis, og efla vöðvastyrk. Allt þetta stuðlar að því að fólk hefur meiri orku til að takast á við verkefni dagsins og gera það sem því finnst skemmtilegt. Hreyfing hefur því mun fjölþættari þýðingu fyrir heilsu og vellíðan en einungis að viðhalda jafnvægi á milli orkuneyslu og orkunotkunar og er öllum mikilvæg óháð aldri, líkamsgetu, andlegri heilsu eða holdafari.

 

Leggjum áherslu á lífsvenjur fremur en líkamsþyngd

Vigtin er takmarkaður mælikvarði á heilbrigði. Þeir sem eru svipaðir í útliti geta verið misþungir þar sem niðurstöðutalan á vigtinni segir aðeins til um heildarþyngd líkamans. Vigtin segir lítið til um aðra þætti sem skipta ekki síður máli þegar heilbrigði er annars vegar, svo sem samsetningu líkamans (t.d. hlutfall fitu og vöðva), líkamshreysti, andlega líðan og félagslega virkni. Þannig hafa rannsóknir t.d. sýnt að fólk sem flokkast of þungt en stundar hreyfingu reglulega, getur verið heilbrigðara en grannvaxið fólk sem hreyfir sig lítið. Því er mikilvægt að hafa hugfast að það er ekki sjálfkrafa hægt að leggja að jöfnu að vera grannur og heilbrigður eða þéttvaxinn og óheilbrigður. Áherslan ætti því almennt fremur að vera á heilbrigðar lífsvenjur, líkt og daglega hreyfingu, en líkamsþyngd.

 

Ábyrg umræða um holdafar

Það er talsvert áhyggjuefni hversu algengt er að ekki síst ungar stúlkur og konur séu ósáttar við líkamsvöxt sinn og þyngd. Þar eiga meðal annars hlut að máli ýmiss konar skilaboð um ákjósanlegt útlit sem berast úr öllum áttum. Umræður t.d. ættingja, vina og samstarfsfólks um eigið vaxtarlag og annarra geta skapað félagslegan þrýsting um að vera grannur og staðalmyndirnar, sem birtast í fjölmiðlum, eru oft ekki í samræmi við það sem getur talist raunhæft eða heilbrigt. Einnig er hugsanlegt að mikil umræða um vaxandi ofþyngd þjóðarinnar ýti undir að mælikvarði fólks á heilbrigði einskorðist um of við holdafar. Mikilvægt er að þekkja kosti þess fyrir heilsuna að vera hvorki of feitur né of grannur en fyrst og fremst ætti að leggja áherslu á að fólk tileinki sér lifnaðarhætti sem fela meðal annars í sér daglega hreyfingu og hollar matarvenjur. Þannig má auka líkurnar á að fleiri njóti þess fjölþætta ávinnings sem fylgir slíkum lifnaðarháttu fyrir heilsu og vellíðan almennt, óháð holdafari.