Fjolskylda _ylstrondÆskilegt er að takmarka þann tíma sem er varið í afþreyingu við skjá. Þannig fæst einnig meiri tími til útivistar, leikja og íþróttaiðkunar með fjölskyldu og vinum.

Frístund eða tómstund er oft skilgreind sem sá tími sem ekki fer í að sinna störfum, svo sem vinnu, skóla eða heimilisverkum. Ýmislegt getur haft áhrif á hversu mikinn frítíma fólk hefur til ráðstöfunar og hvaða tækifæri það hefur til hreyfingar í frítíma. Má þar nefna aldur, fjölskylduaðstæður, fjárhag, atvinnu og búsetu.

 

Hreyfing veitir betri hvíld

Gott er að nýta frístundir til að hvíla sig frá daglegu amstri og gera eitthvað ánægjulegt og uppbyggjandi fyrir sjálfan sig og sína nánustu. Algengt er að þreyta hindri fólk í að hreyfa sig og sumir fara því þá leið að verja frítímanum í langvarandi setur og jafnvel að liggja og hvíla sig til að safna kröftum. Það er hins vegar ekki áhrifaríkasta leiðin til að hvíla líkama og huga þegar miklum hluta dagsins hefur verið varið í kyrrsetu. Betri leið er til dæmis að fara í röska gönguferð því þannig er hægt að fá bæði líkamlega og andlega útrás og dreifa huganum. Þannig má losa um streitu og stirðleika, bæta andlega orku, líkamlegan styrk og umfram allt hvílast betur að hreyfingu lokinni.

 

Afþreying við skjá í meira en tvo tíma á dag er óæskileg

Börn og unglingar verja frítíma sínum í auknum mæli í afþreyingu við skjá, svo sem tölvu eða sjónvarp. Slík hegðun hefur t.d. verið tengd minni hreyfingu, ofþyngd og félagslegri einangrun. Vissulega er líklegt að tölvuleikir, sem fela í sér hreyfingu, séu æskilegri en aðrir tölvuleikir þegar litið er heilbrigðis. Hins vegar ætti að líta á slíka tölvuleiki sem viðbót fremur en staðgengil annarrar hreyfingar í frítíma. Hvort sem um er að ræða börn, unglinga eða fullorðna er æskilegt að takmarka þann tíma sem er varið í afþreyingu við skjá. Þannig fæst líka tími sem hægt er að nýta til útivistar, leikja og íþróttaiðkunar með fjölskyldu og vinum.

 

Ódýrt á eigin vegum

Jarðvarmi, hreint loft og fallegt landslag er dæmi um þá ómetanlegu auðlind sem landið okkar býr yfir. Hægt er að stunda margs konar útivist í fjölbreyttu umhverfi sem gleður augað og önnur skilningarvit og heita vatnið gerir fólki kleift að synda utandyra allan ársins hring. Flestir ættu því að geta stundað einhvers konar hreyfingu í frítíma sínum, í næsta nágrenni við heimili sitt, án mikillar fyrirhafnar, tíma eða fjárútláta. Auk þess að fara í sund er tilvalið að nýta nálæg græn svæði, fjörur, fjöll, göngu- og hjólastíga og önnur útivistar- og leiksvæði til að ganga, skokka, hjóla, stunda fjölbreytta leiki og annars konar hreyfingu. Ýmsar liðleikaæfingar og styrkæfingar með eigin þyngd, svo sem kviðæfingar, bakæfingar, hnébeygjur og armbeygjur, ættu margir að geta stundað því sem næst hvar og hvenær sem er. Ef hálka er til trafala eru t.d. fjölnota íþróttahús og verslunarmiðstöðvar hentugt svæði til gönguæfinga á veturna.

 

Skipulögð hreyfing veitir stuðning

Hæfni fólks til að skipuleggja eigin hreyfingu sem og félagslegur stuðningur eru dæmi um mikilvæga þætti sem hafa áhrif á hversu mikið fólk hreyfir sig. Gott er að sem flestir hafi tækifæri til að taka þátt í skipulagðri hreyfingu við hæfi, ekki síst þeir sem þurfa mikla hvatningu og stuðning til að hreyfa sig. Þátttaka barna og ungs fólks í skipulögðu íþróttastarfi stuðlar ekki aðeins að aukinni hreyfingu, með öllum þeim ávinningi sem því fylgir fyrir heilsuna, heldur skapar hún einnig tækifæri til að efla félagsþroska, eignast vini og líkurnar á ýmiss konar áhættuhegðun minnka. Fjölbreytni er æskileg og umfram allt er mikilvægt að þátttakan veiti gleði og ýti undir sjálfstraust. Fólk hreyfir sig oft minna eftir því sem það eldist og því þurfa unglingar og fullorðnir ekki síður á hvatningu og stuðningi að halda til að hreyfa sig en börnin. Í viðbót við skipulagt íþróttastarf er tilvalið að nýta sér þjónustu heilsuræktarstöðva, ferðafélaga og annarra sambærilegra aðila. Þar sem líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði er í húfi er æskilegt að gera viðeigandi kröfur um gæði og fagmennsku þeirrar þjónustu sem er í boði.