Með daglegri hreyfingu er hægt að fækka veikindadögum, vernda stoðkerfið, skerpa athygli og auka afköst.
Margir verja stórum hluta dagsins á vinnustað eða í skóla og eru þessir staðir því mikilvægur vettvangur fyrir daglega hreyfingu. Með reglulegri hreyfingu er m.a. hægt að fækka veikindadögum, vernda stoðkerfið (s.s. vöðva, sinar og bein) og stuðla að andlegri vellíðan, skerpa athygli og auka afköst. Auk þess skapar sameiginleg hreyfing tækifæri til að auka félagslega færni, eignast nýja vini og efla liðsheildina. Þessi ávinningur getur átt við hvort sem um er að ræða fólk á vinnumarkaði eða nemendur á mismunandi skólastigum.

  • Leikskólar

Börn á leikskólaaldri kynnast lífinu og tilverunni ekki síst við leiki og hafa yfirleitt ríka hreyfiþörf. Sum börn eru hins vegar rólegri í tíðinni en önnur og er sérstaklega mikilvægt að hvetja þau til að hreyfa sig. Starfsfólk getur fylgst með börnunum í frjálsum leikjum auk þess sem skipulagðar hreyfistundir, bæði innandyra og utan, gefa tækifæri til að ná sérstaklega til þeirra barna sem þurfa mest á því að halda. Gott er að leggja grunninn að heilsusamlegum ferðavenjum barnanna með því að ganga, hjóla eða nota almenningsvagna þegar farið er í og úr leikskóla.


Heilsueflandi leikskóli

  • Grunnskólar

Mikilvægt er að hvetja börn og unglinga til að ganga, hjóla eða nýta almenningssamgöngur í og úr skóla eftir því sem á við. Þátttaka í ýmiss konar leikjum veitir góða hreyfingu í frímínútum. Eins er betri kostur að ganga um og spjalla heldur en að gera slíkt sitjandi. Ef börn hreyfa sig lítið og veigra sér jafnvel við að taka þátt í íþróttatímum er mikilvægt að foreldrar og kennarar leiti viðeigandi lausna í samráði við börnin. Regluleg hlé til að teygja úr sér og hreyfa sig, ekki síst þegar unnið er við tölvur, auka blóðstreymi um líkamann og minnka líkurnar á stoðkerfisvandamálum, svo sem verkjum í vöðvum eða liðum. Slík hlé geta einnig verið gagnleg til að losa um óróleika og skerpa athygli. Gott er að hafa í huga að algengt er að hreyfing minnki með hækkandi aldri. Því þarf ekki síður að hvetja og styðja unglinga til að hreyfa sig daglega en þá sem yngri eru. 

Heilsueflandi grunnskóli

Krakkar _korfubolti

 

  • Framhaldsskólar og háskólar

Eftir því sem lengra er komið á menntabrautinni gerir námið auknar kröfur um tíma og athygli nemenda, þeir verða sjálfstæðari og náminu fylgja oft aukin útgjöld og þá meiri launavinna. Frábær leið til heilsuræktar er að ganga eða hjóla í skólann en auk þess er gott að nota frímínútur og önnur hlé til að teygja úr sér og ganga rösklega um. Þannig er hægt að losa um andlega spennu, bæta einbeitingu og minnka líkur á stoðkerfisvandamálum, svo sem stirðum og aumum vöðvum og liðum. Skipulagðir íþróttatímar eru í stundaskrá framhaldsskólanemenda og þannig fá þeir tækifæri til þjálfunar. Einnig hafa nemendur á þessum skólastigum oft aðgang að búningsaðstöðu og jafnvel íþrótta- eða tækjasal utan hefðbundinnar kennslu og er kjörið að nýta sér það.

Heilsueflandi framhaldsskóli

Kona _hjol 

  • Vinnustaðir

Á vinnumarkaðnum fjölgar kyrrsetustörfum en störfum, sem fela í sér líkamlega áreynslu, fækkar að sama skapi. Þeir sem vinna kyrrsetustörf geta spornað við áhrifum þessa með því að velja ferðamáta sem felur í sér hreyfingu og nýta sér öll tækifæri sem gefast til hreyfingar, svo sem að nota stigann í stað lyftunnar og ganga með skilaboð til samstarfsfélaganna í stað þess að senda tölvupóst eða hringja. Fólk, sem vinnur einhæfa kyrrsetuvinnu, svo sem við tölvu, ætti að standa upp á að minnsta kosti á 30-45 mínútna fresti, ganga um og teygja úr sér. Þannig er hægt að losa um andlega spennu, skerpa einbeitinguna og minnka líkur á vöðva- og liðverkjum. Sameiginleg hreyfing veitir gagnkvæman stuðning og eflir liðsheildina. Því er tilvalið fyrir samstarfsfélaga að taka sig saman og til dæmis ganga eða skokka í hádeginu. Þátttaka í ýmsum almenningsíþróttaviðburðum skapar einnig skemmtilegan anda og þjappar hópnum saman.

Heilsueflandi vinnustaðir