Notum göngu eða hjólreiðar sem ferðamáta

Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja ferðamáta sem felur í sér hreyfingu (virkan ferðamáta), svo sem að ganga eða hjóla. Með því að ganga eða hjóla í og úr vinnu, í skóla, tómstundastarf og til að sinna öðrum erindum er á einfaldan hátt hægt að uppfylla þarfir um lágmarkshreyfingu og njóta þess ávinnings sem því fylgir. Stærstu vöðvar líkamans eru virkjaðir, hjartað fær þjálfun og orkunotkun eykst. Auk þess að nýta ferðatímann til ókeypis heilsuræktar er hægt að spara kostnað vegna einkabílsins, draga úr umferðarþunga og stuðla að heilnæmara lofti. Ef fólk notar almenningsvagna fremur en einkabílinn hreyfir það sig meira því það gengur til og frá biðstöðvum. Strætisvagnar eru því góður kostur, ekki síst á lengri vegalengdum. Einnig er hægt að ganga eða hjóla aðra leiðina og taka strætisvagninn hina leiðina.

Hjoladivinnu 

Tími og vegalengdir

Oft ber fólk við tímaskorti þegar það hreyfir sig lítið. Vegalengdin er því eðlilega eitt atriði sem skiptir máli þegar ferðamáti er valinn. Samkvæmt könnun á ferðavenjum í Reykjavík frá árinu 2002 voru um þrjár af hverjum fjórum ferðum farnar á einkabíl og aðeins um fimmtungur ferða gangandi eða á hjóli. Þegar litið er á vegalengdir í þessum ferðum kemur í ljós að meira en helmingur þeirra var styttri en 2 km og þrjár af hverjum fjórum voru styttri en 5 km. Það er hvorki tímafrekt né erfitt að fækka bílferðum og hreyfa sig um leið í samræmi við ráðleggingar.

 

Veðrið og klæðnaður

Veðrátta er annað atriði sem getur komið í veg fyrir útiveru og þar með að fólk gangi eða hjóli milli staða. Veðrið á Íslandi er þó sjaldan það slæmt að viðeigandi klæðnaður sé ekki nægileg vörn. Reynslan hefur kennt mörgum að veðrið virðist oft verra þegar litið er út um glugga eða bílrúðu en það raunverulega er. Það er ágætt að klæðast fleiri þunnum flíkum en fáum þykkum. Þannig er auðveldara að bregðast við breytingum á veðri, s.s. úrkomu eða vindi, og mismunandi álagi við hreyfinguna. Hentugt er að hafa tösku á hjólinu til að geyma nauðsynjar, s.s. umframfatnað. Klæðnaður, sem leyfir eðlilegar hreyfingar, þar með taldir þægilegir skór, stuðlar fremur að því að fólk hreyfi sig meira í daglegu lífi en klæðnaður sem þrengir að líkamanum og veldur óþægindum.

 

Öryggið í fyrirrúmi

Skortur á öryggi er algeng skýring á því hvers vegna fólk velur ekki virkan ferðamáta, ekki síst þegar börn eiga í hlut. Umferðarþungi í námunda við skóla er til dæmis algeng ástæða fyrir því að foreldrar telja að öryggi barnsins sé ógnað og ákveða þess vegna að aka því í skólann. Þannig getur skapast vítahringur þar sem foreldrarnir skapa aukna bílaumferð sem eykur enn á vandann og minnkar líkurnar á að ganga eða hjólreiðar verði fyrir valinu. Mikilvægt er rjúfa slíkan vítahring til að efla heilsu barnanna og leggja grunninn að heilsusamlegum ferðavenjum þeirra í framtíðinni. Til að stuðla að öryggi í umferðinni er mikilvægt að stígar fyrir gangandi og hjólandi séu öruggir, allir vegfarendur þekki og virði umferðarreglurnar, haldi vöku sinni og sýni gagnkvæma tillitssemi. Að auki ættu gangandi og hjólandi vegfarendur ávallt að nota endurskinsmerki og þeir síðarnefndu reiðhjólahjálm. Samkvæmt reglugerð eiga hjólreiðamenn að nota fram- og afturljós þegar dimmt er og á veturna veita nagladekk á hjólum og mannbroddar á skóm betra grip. Fullorðnir þurfa að fylgja yngstu börnunum á meðan þau eru að læra umferðarreglurnar og átta sig á leiðinni í skólann.

 

Stundum er betra en aldrei

Þegar fólk ferðast þarf valið alls ekki að standa annað hvort á milli göngu, hjólreiða, almenningsvagna eða einkabílsins. Með góðu skipulagi er hins vegar raunhæft hjá fjölmörgum að fara fleiri ferðir gangandi eða á hjóli heldur en núna er. Erindum, sem sinna þarf á bíl, er hægt að safna saman, t.d. á einn dag vikunnar. Aðstæður fólks geta verið breytilegar frá degi til dags eða eftir árstíðum og eðlilegt að taka mið af því hverju sinni. Valið er okkar.

 

Sjá meira um hreyfingu HÉR