Hreyfing er almennt skilgreind sem hvers konar vinna beinagrindarvöðva sem eykur orkunotkun umfram það sem gerist í hvíld.

Hreyfing er þannig yfirgripsmikið hugtak sem nær yfir nánast allar athafnir sem fela í sér hreyfingu með einum eða öðrum hætti, t.d. að ferðast á milli staða gangandi eða á hjóli, heimilisstörf, garðvinnu, ýmiss konar leiki, íþróttir og aðra skipulagða þjálfun.

Hreyfingu má einnig skilgreina út frá fjórum meginþáttum:

  • Ákefð (hve erfitt)
  • Tíma (hve lengi)
  • Tíðni (hve oft)
  • Tegund (hvers konar hreyfing)

Samanber  skilgreiningu hreyfingar eru möguleikarnir nær óendanlegir og allir ættu að geta fundið sína leið til að stunda hreyfingu við hæfi. 

Þjálfun

Þjálfun er skipulögð, markviss og endurtekin hreyfing sem ætlað er að bæta eða viðhalda einum eða fleiri þáttum líkamshreysti.

 

Heilsa

Heilsa er skilgreind sem líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og örorku.

 

Lýðheilsa

Lýðheilsa er hugtak yfir almennt heilsufar þjóðar eða þjóðfélagshóps. Lýðheilsustarf miðar að því að viðhalda og efla heilbrigði fólks, með forvarnarstarfi og samfélagslegri ábyrgð á heilbrigði. Starfið byggist á samstarfi ólíkra fræðigreina og tekur m.a. til efnahagslegra og félagslegra áhrifaþátta.

 

Hreyfing til heilsubótar

Hreyfing til heilsubótar er hvers konar hreyfing, sem er að minnsta kosti miðlungserfið, og bætir heilsu og færni án þess að valda skaða eða áhættu.

 

Líkamshreysti

Líkamshreysti er samheiti yfir eiginleika sem fólk býr yfir eða öðlast og tengjast getunni til að hreyfa sig. Hugtakið nær m.a. yfir afkastagetu lungna, hjarta og æðakerfis sem og vöðvastyrk, liðleika og samhæfingu.

 

Íþróttir

Íþróttir er hugtak sem yfirleitt er tengt starfsemi skipulagðra íþróttafélaga. Hér eru íþróttir skilgreindar sem hreyfing sem stunduð er við þjálfun eða keppni á vegum íþróttasamtaka. Þannig er litið á að íþróttir falli sem sérhæfðari og skipulagðari þáttur undir yfirgripsmikla skilgreiningu hreyfingar.

 

Kyrrseta

Kyrrseta jafngildir lítilli hreyfingu og hana má skilgreina sem ástand þar sem orkunotkun líkamans er nálægt því sem gerist í hvíld. Þetta þýðir að fólk, sem hreyfir sig lítið í vinnu og frítíma, situr eða liggur mikið og notar að mestu vélknúin farartæki, telst vera kyrrsetufólk.

 

Sjá meira um hreyfingu HÉR