Til að hafa áhrif á hreyfivenjur fólks er nauðsynlegt að þekkja þá þætti sem geta haft áhrif á daglega hreyfingu. Þeir eru fjölmargir og snúa bæði að einstaklingnum sjálfum og umhverfi hans. Hér á eftir eru nokkrir slíkir þættir nefndir.

 

Einstaklingsbundnir þættir sem hafa áhrif á hreyfingu

Algeng atriði, sem fólk nefnir að komi í veg fyrir daglega hreyfingu, eru: tímaskortur, þreyta, áhugaleysi og óöryggi. Þegar kemur að ákvörðun um að hreyfa sig er því lykilatriði að nánasta umhverfi (sjá Umhverfisþættir sem hafa áhrif á hreyfingu) hafi jákvæð áhrif meðal annars á eftirfarandi þætti sem snúa að einstaklingunum sjálfum:

  • Þekking til dæmis á ráðleggingum um hreyfingu (hvað er æskileg hreyfing?) og mikilvægi hreyfingar fyrir heilsu og vellíðan.
  • Viðhorf til hreyfingar getur m.a. haft áhrif á forgangsröðun í daglegu lífi. Hversu mikilvæg er dagleg hreyfing fyrir mig og mína? Hef ég ánægju af því að hreyfa mig?
  • Trú á eigin getu til þess að stunda hreyfingu daglega. Hér hefur m.a. áhrif hvernig einstaklingar skynja ýmsar hindranir fyrir hreyfingu og færni viðkomandi í að yfirvinna þær.

 

Umhverfisþættir sem hafa áhrif á hreyfingu

Þegar allt kemur til alls er það einstaklingurinn sjálfur sem verður að hreyfa sig. Ef hindranirnar virðast vera of margar eða óyfirstíganlegar er hins vegar ólíklegra að viðkomandi hreyfi sig. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þegar nánasta umhverfi hvetur til hreyfingar (er hreyfivænt) finnur fólk síður fyrir hindrunum og er því líklegra en ella til að stunda daglega hreyfingu.

  • Félagslegt umhverfi

Mikilvægt er að félagslegt umhverfi einstaklinga og samfélagshópa sé þannig að það stuðli að hreyfingu. Má þar sem dæmi nefna að foreldrar, vinir, kennarar og heilbrigðisstarfsfólk veiti fræðslu um hreyfingu og hvetji til ástundunar hreyfingar. Framboð á og þátttökugjöld í skipulögðu starfi, sem felur í sér hreyfingu, svo sem í skólum, á vinnustöðum og hjá frjálsum félagasamtökum, hefur áhrif á hversu auðvelt fólk á með að taka þátt í slíku starfi. Að sama skapi getur niðurgreiðsla á ýmiss konar þjónustu og vörum, sem tengjast hreyfingu, komið í veg fyrir að kostnaður sé hindrun og þannig stuðlað að jöfnum tækifærum til hreyfingar, óháð fjárhag eða félagslegri stöðu.

  • Manngert umhverfi

Mikill kostur er að eiga greiðan aðgang að margs konar náttúrulegum svæðum til útivistar utan byggðar. En það er einnig mikilvægt að hreyfing sé raunhæfur og auðveldur kostur í byggð. Sem dæmi má nefna að staðsetning og gæði grænna svæða, leikvalla og annarra íþróttamannvirkja hefur áhrif á nýtingu þeirra og á þeirri þjónustu sem þar er boðin. Fólk velur einnig fremur göngu eða hjólreiðar sem ferðamáta ef leiðirnar á milli áfangastaða (t.d. heimilis, vinnustaðar og verslana) eru vel tengdar með þéttu og öruggu stíganeti sem er opið allan ársins hring.

 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin leggur áherslu á að allir þjóðfélagsþegnar hafi jöfn tækifæri til að stunda fjölbreytta hreyfingu. Líkt og komið hefur fram hafa afar mörg og ólík atriði á öllum stigum samfélagsins áhrif á það hvort fólk hreyfir sig. Þess vegna leggur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áherslu á að aukin hreyfing sé ekki aðeins samstarfsverkefni þeirra sem sinna heilbrigðis-, mennta- og íþróttamálum heldur einnig t.d. þeirra sem starfa að skipulags- og samgöngumálum sem og félags- og umhverfismálum.

 

Sjá meira um hreyfingu HÉR