2014_lauf_himinn

Skiptu út neikvæðum hugsunum fyrir jákvæðar

Stundum tekur maður ekki eftir því hvers eðlis hugsanir manns eru. Veittu hugsunum þínum eftirtekt og endurskoðaðu neikvæðar hugmyndir um sjálfa(n) þig. Talar þú við sjálfa(n) þig á jákvæðan og uppbyggilegan hátt eða ertu að rífa þig niður og gera lítið úr þér? Veltu þessu fyrir þér og endurskoðaðu innihald hugsana þinna. Er það satt sem þú segir við sjálfa(n) þig? Er það sanngjarnt? Myndirðu tala svona við einhvern annan?

 

Ljúktu við verkefni

Lágu sjálfsmati fylgir oft lítil áhugahvöt. Með því að gera eitthvað, sama hversu lítið það er, getur þú aukið vellíðan þína og sjálfstraust. Gerðu lista yfir verkefni sem þú getur tekið þér fyrir hendur þegar þú hefur ekkert að gera. Til dæmis: Taka til í einni skúffu, þrífa ísskápinn, setja myndir í albúm eða ramma, lesa grein sem þig hefur lengi langað til að lesa, taka mynd af einhverju fallegu, búa um rúmið, þvo eina vél, fara í göngutúr og margt, margt fleira. Þér líður vel þegar þú hefur lokið við verkefni, jafnvel þótt það sé lítið og taki ekki mikinn tíma.

 

Skrifaðu lista yfir hluti sem þú hefur gert

Að skrifa lista yfir það sem þú hefur afrekað um ævina hjálpar til við að beina hugsunum þínum í jákvæðari farveg. Þú getur gert þetta oft og mörgum sinnum eða þegar þér finnst sjálfstraustið vera að minnka.

Náðu þér í blað og penna og gefðu þér allavega nokkrar mínútur í að rifja upp hluti sem þú hefur gert. Ekkert er of lítið eða of stórt til að fara á listann sem gæti innihaldið eitthvað eins og að:

 • ala upp barn
 • rækta plöntur eða sinna blómum
 • eignast góðan vin
 • halda heimili
 • takast á við erfið veikindi eða fötlun
 • brosa til manneskju sem virðist döpur
 • fá vinnu
 • fara í gönguferð
 • klára skóla eða próf

Mundu svo að þegar við gerum eitthvað fyrir aðra líður okkur vel og það getur verið góð leið til þess að auka sjálfstraustið. Það hefur einnig jákvæð áhrif á sjálfstraust okkar að taka virkan þátt í lífinu, sinna atvinnu, félagsstörfum, áhugamálum eða sjálfboðavinnu, sömuleiðis að læra nýja hluti, setja sér einföld og viðráðanleg markmið og auka færni eða þekkingu sína á ýmsum sviðum.

 

Fleiri hlutir sem þú getur gert til að efla sjálfsmatið

Hér er listi yfir fleiri hluti sem þú getur gert til þess að líða betur með sjálfa(n) þig. Sumir hlutir eru heppilegir á ákveðnum tímum en aðrir ekki. Suma hluti á listanum viltu ekki eða munt ekki gera. Finndu það sem hentar þér, bættu við og notaðu þegar þú vilt. Það getur verið sniðugt að hengja listann á áberandi stað til að minna þig á.

 • Umvefðu þig fólki sem er jákvætt, gefandi og ástríkt
 • Klæddu þig í föt sem láta þér líða vel
 • Flettu í gegnum gamlar myndir eða úrklippubækur sem kalla fram góðar minningar
 • Búðu til samantekt um líf þitt og hafðu jákvæðni sem rauða þráðinn
 • Taktu þér 10 mínútur til að skrifa niður allt það góða sem þér dettur í hug um þig og líf þitt
 • Gerðu eitthvað sem þú hefur gaman af og kemur þér til að hlæja
 • Vertu þinn besti vinur/vinkona og komdu fram við þig sem slíkan

Að lokum

Það að vinna að heilbrigðu sjálfsmati er oftar en ekki vinna fyrir lífstíð. Það er samt mikilvægt að það verði ekki byrði á þér og þú njótir þess að framkvæma verkefnin. Hlutir sem efla sjálfsmatið láta þér ekki aðeins líða betur með sjálfa(n) þig heldur auka lífsgæði þín með aukinni orku og fyllingu í líf þitt.

 

Copeland, M. (2006). Tips for Building Self-Esteem. Psych Central. Sótt 19. júlí 2013, af http://psychcentral.com/lib/blueprints-for-building-self-esteem/000293.