Álag þarf ekki alltaf að vera slæmt. Hóflegt álag getur haft hvetjandi áhrif en langvarandi og mikið álag skaðar heilsuna. Því er mikilvægt að kunna að takast á við álag á jákvæðan hátt og reyna að forðast að það verði of mikið. Erfiðar breytingar á borð við sjúkdóma, ástvinamissi og sambandsslit geta valdið álagi. Það sama á við um jákvæðar breytingar eins og frí, giftingu, barnsfæðingu og breytingar á vinnuumhverfi.

2014_joga

Streitustjórnun

Langvarandi streita er stór áhættuþáttur sjúkdóma og vanlíðanar. Hún getur stuðlað að svefnvanda og ýtt undir óheilbrigðar lífsvenjur. Ef vinnuálagið verður of mikið getum við smám saman misst stjórn á hlutunum og lífsmynstrið farið úr skorðum.

Okkur finnst við vera orkulaus og þreytt, ánægjan við að framkvæma minnkar og við förum að missa svefn. Viðnám líkamans minnkar við langvarandi stress og við fáum oftar sýkingar og umgangspestir, höfuðverk og kviðverki. Blóðþrýstingur getur einnig hækkað.

Það er mikilvægt að gefa sál og líkama möguleika á að jafna sig eftir mikið álag, hvílast vel og gefa sér tíma fyrir sjálfan sig. Reynum að leysa úr þeim þáttum í okkar daglega mynstri og umhverfi sem valda streitu til að minnka álagið.

Til eru margar ólíkar aðferðir til að minnka streitu og álag. Sumir nota slökun, aðrir fara meira út og hreyfa sig oftar. Það tekur tíma og þolinmæði að brjóta upp lífsmynstur sem veldur álagi og streitu. Mikilvægt er því að taka eitt skref í einu og setja eigin heilsu og lífsánægju í fyrsta sæti.

 

Byggt á bæklingnum: Hefur þú velt fyrir þér lífstíl þínum. HAL. HSA.