Mörgum þykir erfitt að takast á við fjölbreyttar kröfur nútímans og streita er sterkur áhættuþáttur sjúkdóma og vanlíðanar. Á erfiðum tímum er oft erfitt að sjá ljósið við enda ganganna og þar kemur núvitund (mindfulness) til sögunnar.

Núvitund er leið til að efla vellíðan og lífsgæði með því að taka betur eftir líðandi stund og finna betur fyrir sjálfum sér, hugsunum sínum og líðan. Þetta er þjálfað með einföldum æfingum sem snúa að hugleiðslu og markvissri þjálfun athyglinnar. Núvitund gerir okkur meðvitaðri um hugsanir okkar og tilfinningar gerir okkur betri í að takast á við þær.

Allir geta þjálfað núvitund. Það er einfalt, hægt að stunda hvar sem er og árangurinn getur breytt lífinu til hins betra.

Lidan (1)
 Rannsóknir sýna að núvitund getur:

  • hjálpað til við að takast á við langvinna verki
  • aukið samhygð og dregið úr reiði
  • haft bein áhrif á virkni heilans
  • dregið úr streitu, kvíða og þunglyndi
  • aukið jákvæðni og lífsgleði

 

Áhrifarík athyglisþjálfun í átt að aukinni  vellíðan

2014_heilihlaupa

Þjálfun í núvitund er mjög áhrifarík leið til að ná tökum á hugarferlum og auka vellíðan. Núvitund er aðferð við að beina athyglinni að núinu, sjálfum sér, öðru fólki og heiminum í kringum sig. Núvitund kemur úr hugleiðsluaðferðum búddista og hafa vinsældir aðferðarinnar aukist mikið síðustu ár. Þetta er hæfileiki sem allir geta þjálfað og vitað er að slík þjálfun hefur bein áhrif á hugarstarfsemi og líðan.

Rannsóknir frá Harvard háskóla og fleiri stöðum sýna að eftir aðeins átta vikna námskeið í núvitund er eykst þéttni gráa efnis í heila á þeim svæðum sem tengjast athygli, tilfinningastjórnun og ákvarðanatöku. Þjálfunin eykur líka virkni í vinstri framheilaberki sem hefur með hamingju og vellíðan að gera. Einnig getur þjálfun í núvitund bætt ónæmiskerfið og þannig hjálpað þér að berjast gegn sjúkdómum.

Viltu kynnast núvitund?
Til eru heilmargar heimasíður og bækur um núvitund. Þú getur leitað eftir námskeiðum hérlendis, skroppið í næstu bókabúð eða leitað að heimsíðum á netinu.

Fyrsta útgáfan af hinu íslenska Happ appi fór í loftið fyrir stuttu og er væntanleg í iStore innan skamms og seinna verður það einnig fáanlegt fyrir Android stýrikerfi. Allir geta þó farið núna inn á happapp.is og prófað byrjendaprógramið sem inniheldur æfinguna 3 góðir hlutir og 4 tegundir af hugleiðsluæfingum til þess að hlusta á. Síðar bætast fleiri prógröm við.

Af erlendum síðum má t.d. nefna eina gagnlega síðu fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna: www.headspace.com. Þar getur þú prófað núvitund á einfaldan máta í 10 mínútur á dag í 10 daga. Fyrir áframhaldandi notkun þarf að greiða gjald en þetta er góður staður til að byrja á. Hægt að nota í tölvunni en einnig getur þú sótt forritið í símann.