Fiskur er mjög hollur. Hann er góður próteingjafi og í honum eru ýmis önnur næringarefni, t.d. selen og joð. Í feitum fiski er einnig D-vítamín og ómega-3 fitusýrur. Allir þurfa D-vítamín fyrir uppbyggingu beina og ómega-3 fitusýrur gegna margvíslegu hlutverki í líkamanum. Þær taka m.a. þátt í að byggja upp frumuhimnur og mynda efni sem hafa áhrif á blóðþrýstingsstjórnun, blóðstorknun og bólgu- og ónæmissvörun líkamans. Bæði feitur og magur fiskur virðist hafa jákvæð áhrif á heilsuna og eru þar trúlega fleiri en eitt innihaldsefni að verki. Þess vegna er æskilegt að borða bæði feitan og magran fisk.


Diskur Fiskur BakhlidBætum mataræðið

Fiskneysla á Íslandi hefur dregist verulega saman, sérstaklega hjá ungu fólki. Þetta er áhyggjuefni þar sem fiskur er mjög hollur og margir telja að það sé einmitt fiskinum og lýsinu að þakka hversu heilsuhraust og langlíf þjóðin hefur verið.

Við getum bætt úr þessu með því að vera dugleg að matreiða fisk á sem fjölbreyttastan hátt, bæði sem hversdags- og veislumat. Það þarf ekki að taka langan tíma að lokka fram girnilega og bragðgóða fiskmáltíð og þannig kenna börnunum okkar – og allri fjölskyldunni – að meta góðan fisk. Í bæklingnum Borðum meiri fisk má finna fjölbreyttar fiskuppskriftir og er þess vænst að hann stuðli að því að fiskur sé oftar á borðum – að minnsta kosti tvisvar í viku. Gaman væri t.d. að fá fjölskylduna til þess að meta réttina og að lokum velja uppáhalds fiskrétt fjölskyldunnar – eða uppáhaldsrétt hvers og eins fjölskyldumeðlims. Þannig er enn auðveldara að ákveða hvað á að vera í matinn hverju sinni.

Veljum fiskinn vel

Nýr fiskur er stinnur með gljáandi roð og lyktarlítill. Mjög mikilvægt er að velja sem ferskastan fisk því ef hráefnið er ekki gott bragðast réttirnir ekki nógu vel.

Fiskiflök:

  • Fersk flök eru yfirleitt ljós, hvít eða nær gagnsæ (eftir fisktegund).
  • Lykt af ferskum flökum er lítil en minnir á sjó, þang eða fjöru.
  • Flök af ferskum og vel meðhöndluðum fiski eru stinn og ósprungin.

Heill fiskur:
Ef fiskur er heill segja roð, tálkn og augu mikið um ferskleika hans.

  • Á nýveiddum fiski er roðið glansandi, tálknin rauð (misrauð eftir tegund) og hann er lyktarlítill.
  • Augun eru útstæð, augasteinninn svartur og hornhimnan tær.

Frosinn fiskur:
Frosinn fiskur er yfirleitt ágætis hráefni sérstaklega ef fiskurinn er frystur nýveiddur.

Þegar fiskur fer að skemmast breytist bæði lykt og útlit.

Sjá nánar í bæklingi frá árinu 2007.

Njótið vel og verði ykkur að góðu!