Öllum konum, sem geta orðið barnshafandi er ráðlagt að taka daglega 400 míkrógramma (µg) fólattöflu, auk þess að borða fólatríka fæðu.

Rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl lítillar inntöku fólats fyrir þungun og á fyrstu 12 vikum meðgöngu og hættu á alvarlegum skaða í miðtaugakerfi fóstursins. Hér á landi greinast á ári hverju um sex tilvik alvarlegra skaða í miðtaugakerfi fósturs, svo sem klofinn hryggur, heilaleysi og vatnshöfuð.

  • Þar sem þungun er ekki alltaf skipulögð fyrirfram er öllum konum sem geta orðið barnshafandi ráðlagt að taka fólattöflu daglega.
  • Þeim konum sem hyggja á barneignir, er ráðlagt að taka fólattöflu daglega í a.m.k. fjórar vikur fyrir þungun og halda því áfram að minnsta kosti fyrstu tólf vikur meðgöngu.

Þótt mikilvægt sé að taka fólat áður en meðganga hefst er ekki ástæða til að hafa áhyggjur þótt meðgangan sé þegar hafin heldur einfaldlega byrja að taka fólat og borða fólatríka fæðu á meðgöngunni.


Ekki of stóra skammta

Spinat _jardaber

Fólat er ekki skaðlegt en stórir skammtar af því (sem fást úr fæðubótarefnum eða vítamínbættum matvælum) geta hugsanlega dulið einkenni skorts á B12-vítamíni og einnig komið í veg fyrir nýtingu sinks úr fæðu. Ekki er ráðlegt að taka inn meira en 400 míkrógrömm (µg) af fólati daglega. Barnshafandi konur ættu að forðast að borða lifur og lifrarafurðir jafnvel þó  fólatrík sé, vegna þess hversu mikið A-vítamín er í lifur. Sé dagsskammtur af A-vítamíni meiri en 3000 míkrógrömm getur það valdið vanskapnaði fósturs en ráðlagður dagsskammtur á meðgöngu er 800 míkrógrömm.

Dæmi um fólatrík matvæli:

  • Spínat, spergilkál (brokkólí), steinselja, spergill, rósakál, blómkál, kínakál, blaðsalat, blaðlaukur, graslaukur, grænkál, rauð paprika, avókadó, rauðkál, hvítkál.
  • Jarðaber, kíví, appelsínur.
  • Vítamínbætt morgunkorn (skoðið merkingar á umbúðum), múslí, haframjöl, gróf brauð (t.d. maltbrauð), hveitikím, hveitiklíð, sesamfræ, hörfræ, hnetur, möndlur, hnetusmjör.
  • Kjúklingabaunir, sojabaunir, nýrnabaunir.

 

Hægt er að lesa meira um fólat HÉR.