Leikskoli (1)

Næring barna fyrstu aldursárin leggur grunninn að fæðuvenjum þeirra síðar meir sem og viðhorfum þeirra til matar. Því er mikilvægt að ungbörn fái tækifæri til að borða fjölbreyttan og hollan mat bæði til þess að matarsmekkur þeirra verði fjölbreyttur og þau dafni og þroskist eðlilega.

Mörg börn byrja hjá dagforeldrum eða í ungbarnaleikskólum fyrir eins árs aldurinn. Hér er hægt að nálgast ráðleggingar, sem ætlaðar eru dagforeldrum og starfsfólki í ungbarnaleikskólum, um fæðuval sem hentar sérstaklega hverju aldurskeiði barna að tveggja ára aldri. Markmiðið er að auðvelda þeim að gefa börnunum hollan og góðan mat við hæfi. Ráðleggingar að eins árs aldri eru byggðar á bæklingnum Næring ungbarna en í honum er góð umfjöllun um mataræði barna á fyrsta ári. Ráðleggingar fyrir börn frá eins til tveggja ára aldurs hafa hins vegar ekki verið birtar áður. Aftast í bæklingum er að finna töflur sem veita yfirsýn yfir hvaða fæðutegundir henta barninu á hverju aldursskeiði. Ef um fæðuofnæmi er að ræða þá gilda aðrar ráðleggingar.

Í bæklingnum Ráðleggingar um næringu barna - fyrir dagforeldra og starfsfólk ungbarnaleikskóla er að finna ráðleggingar um næringu barna að 2ja ára aldri og er hann einkum ætlaður dagforeldrum og starfsfólki ungbarnaleikskóla en nýtist einnig foreldrum.