Skoðaðu saltið er samnorrænt verkefni sem Embætti landlæknis stendur fyrir hér á landi. Því er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um saltneyslu sína og hvetja fólk um leið til að skoða saltið í þeim mat sem það borðar.

Íslendingar neyta meira af salti en mælt er með – en margir vita ekki af því. Mest af saltinu er dulið í tilbúnum matvörum. Það er heilsufarslegur ávinningur af því að minnka saltneyslu því þannig má draga úr hækkun blóðþrýstings, en háþrýstingur er einn af áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma.

Áhrif þess að draga úr saltneyslu eru mest hjá þeim sem eru með of háan blóðþrýsting og hjá þeim sem eru yfir kjörþyngd en einnig má vinna gegn þeirri blóðþrýstingshækkun sem yfirleitt fylgir hækkandi aldri. Þá tengist mikil saltneysla einnig auknum líkum á krabbameini í maga.

Mælt er með að fullorðnir neyti ekki meira en sem nemur 6 grömmum af salti á dag. Rannsóknir sýna að Íslendingar neyta meira salts en mælt er með.

Lesið meira á síðunni Skoðaðu saltið

Skoðaðu saltið á Facebook

# skodadusaltid á Instagram