Tjara

Í reyktóbaki eru um það bil 7.000 efnasambönd. Rúmlega 70 þeirra eru krabbameinsvaldar. Dæmi um efni í reyktóbaki: ammoníak, kvikasilfur, blý, formaldehýð og vetnisklóríð (saltsýra).Tjara er klístrað brúnt efni sem litar fingur og tennur reykingamannsins. Þegar reyknum er andað ofan í lungu verður 70% af tjörunni eftir í lungunum. Vitað er að mörg þeirra efna sem eru í tjöru valda krabbameini og skaða á lungnaberkjum og bifhárum sem hafa það hlutverk að verja lungun fyrir óhreinindum og sýkingum.

Kolsýringur

Eitruð lofttegund sem myndast þegar kveikt er í sígarettu. Í stórum skömmtum er hún lífshættuleg. Allt að 15% af blóði reykingamanns ber kolsýring um líkamann í stað súrefnis. Frumur og vefir líkamans þurfa súrefni til að geta starfað. Kolsýringur er sérstaklega skaðlegur á meðgöngu þar sem hann dregur úr súrefnisflutningi til fóstursins.

Nikótín

Er kröftugt, skjótvirkt og eitt mest ávanabindandi efni sem til er. Flestir sem reykja eru háðir nikótíninu í sígarettunum. Þegar kveikt er í sígarettunni fer nikótínið út í blóðrásina og er komið til heilans 7 til 10 sekúndum síðar. Nikótínið hefur margþætt áhrif á líkamann. Þar á meðal eykur það hjartslátt, hækkar blóðþrýsting og örvar efnaskipti. Nikótín hefur einnig áhrif á lundarfar og hegðun reykingamanns.

Onnur _efni

Léttar sígarettur

Gefið er í skyn að léttar eða mildar sígarettur valdi minni skaða en aðrar sígarettur. Þetta er ekki rétt. Slíkar villandi merkingar hafa víða verið bannaðar á umbúðum og í auglýsingum.

Heimild: Bæklingurinn Hættu fyrir lífið, gefinn út af Krabbameinsfélaginu, Lýðheilsustöð og Landspítala háskólasjúkrahúsi (2006).