Konum er sérlega hætt við heilsutjóni af völdum reykinga. Í Noregi voru konur með lungnakrabba t.a.m. fimmfalt fleiri árið 2007 en þær voru 50 árum áður.

Margt bendir til að konur þurfi færri sígarettur og styttri tíma en karlar til að skemma í sér lungun. Dauðsföll vegna lungnakrabba eru nú fleiri meðal kvenna yngri en 50 ára en meðal karla á sama aldri í Noregi.

 • Nú orðið deyja fleiri konur fyrir sjötugt úr lungnakrabba en brjóstakrabba í Noregi.
 • Konum, sem reykja, er 30% hættara við að fá brjóstakrabbamein en þeim sem reykja ekki.
 • Hættan á leghálskrabbameini er allt að fimm sinnum meiri hjá reykingakonum heldur en hjá konum sem reykja ekki.
 • Hættan á kransæðastíflu fimmfaldast þegar konur reykja mikið. Meðal kvenna, sem reykja 14 sígarettur á dag, hefur hættan þegar tvöfaldast.
 • Fjórar konur af fimm, sem fá kransæðastíflu fyrir fimmtugt, reykja.
 • Reykingar kvenna á barneignaaldri hafa áhrif á niðurbrot estrógens. Þetta þýðir meðal annars að það dregur úr náttúrulegum vörnum þeirra gegn hjarta- og æðasjúkdómum.
 • Konur, sem reykja, fara fyrr á breytingaaldurinn en þær sem reykja ekki.
 • Reykingar geta leitt til breytinga á tíðablæðingum og aukið hættuna á túrverkjum og óreglulegum blæðingum.
 • Eftir breytingaaldurinn er reykingakonum hættara við beinþynningu og beinbrotum en konum sem reykja ekki.
 • Reykingar eiga sök á 30% allra þvaglekatilfella.
 • Rannsóknir benda til að reykingakonur fái oftar verki í vöðva og bein en þær sem reykja ekki.


Viltu vita meira?

Hérna getur þú nálgast bæklinginn um konur og reykingar.

 2014_Brjota_sigarettu

Verkir minnka

Rannsóknir benda til að konur, sem reykja, fái oftar verki í vöðva og bein en þær sem reykja ekki. Reykingar kvenna á barneignaaldri hafa áhrif á niðurbrot estrógens. Það eykur hættuna á beinþynningu. Eftir breytingaaldurinn er konum, sem reykja, hættara við beinbrotum en konum sem reykja ekki. Konur, sem reykja, komast þar að auki fyrr á breytingaaldurinn en þær hefðu gert ef þær hefðu ekki reykt.

Beinþynning þróast hægt og hægt. Það bætir að vísu ekki þéttleika eða kalkinnihald beinanna að hætta að reykja en það hjálpar til að draga úr frekara tapi á beinmassa. Sýnt hefur verið fram á að ef konur hætta að reykja áður en breytingaaldri er náð getur það dregið úr hættunni á lærleggjarbroti um 25%.

Sömuleiðis hefur komið í ljós að ef fólk hættir að reykja dregur það úr verkjum út af liðagigt.

 

Reykingar og meðganga

Nikótín og önnur eiturefni úr sígarettunni berast í fóstrið um legkökuna. Nikótínstyrkurinn getur orðið allt að 15% hærri hjá fóstrinu en móðurinni.

Margt bendir til nikótínið geti haft áhrif á frumuskiptinguna í fóstrinu. Reykingar auka einnig hættuna á utanlegsfóstri. Bifhár og hreyfingar eggjaleiðaranna, sem flytja frjóvgað eggið niður í legið, verða fyrir skaða af völdum reykinganna.

Konur sem reykja á meðgöngu ala oft börn sem eru undir eðlilegri fæðingarþyngd. Það er vegna þess að reykingarnar draga úr eðlilegum vexti og þroska barnsins. Reykingar leiða einnig til ýmissa vandræða við fæðinguna og þær auka einnig mjög líkurnar á vöggudauða.

Fleiri staðreyndir um reykingar og meðgöngu

 • Árið 2002 reykti rúmlega 1 af hverjum 10 íslenskra kvenna við upphaf meðgöngu (en meðgöngur þá voru að meðaltali rúmlega fjögur þúsund á ári, þannig að hér er um að ræða fjögur hundruð konur sem reykja við upphaf meðgöngu). Með lægri tíðni reykinga hefur þessi tala að öllum líkindum lækkað eitthvað.
 • Í finnskri rannsókn (Smoking during pregnancy and fetal brain development by Mikael Ekblad) sem birtist nýlega (2013) kemur fram að tíðni kvenna á Norðurlöndunum (Ísland ekki með þar sem engin gögn voru tiltæk um þetta árið 2010) sem reykja við upphaf meðgöngu lækkaði jafnt og þétt á árunum 1983-2009. Í Danmörku, Noregi og Finnlandi var tíðnin í kringum 15% árið 2009 en um 7,5% í Svíþjóð. Finnland var eina landið þar sem tíðni reykinga við upphaf meðgöngu lækkaði ekki samhliða lækkun í tíðni reykinga almennt. Lækkun í tíðni við enda meðgöngutíma átti sér hins vegar stað í öllum löndunum. 
 • Reykingar auka hættuna á utanlegsfóstri. Auk þess er meiri hætta á fósturláti meðal reykingakvenna en þeirra sem reykja ekki.
 • Reykingar á meðgöngu eru taldar eiga þátt í 15% fyrirburafæðinga.
 • Reykingar á meðgöngu eru taldar valda 10% allra andvana fæðinga.
 • Hætta á vöggudauða er 2,5 sinnum meiri ef móðirin hefur reykt á meðgöngunni. Börnum reykingakvenna, sem jafnframt sofa upp í hjá móður sinni, er 18 sinnum hættara við vöggudauða en börnum sem sofa ekki upp í hjá móður sinni.
 • Reykingakonur ala að meðaltali 200-300 grömmum léttari börn en konur sem reykja ekki. Barn, sem er létt við fæðingu, er iðulega með lélegri ónæmisvarnir og á frekar á hættu að fá sjúkdóma og jafnvel deyja en barn sem fæðist eðlilega þungt.
 • 70% kvenna sem reyktu áður en þær urðu ófrískar byrja aftur að reykja eftir að barnið fæðist. Óbeinar reykingar eru afar varasamar heilsufari barna. Óbeinar reykingar auka hættuna á hjartasjúkdómum að minnsta kosti um 30% og hættuna á lungnakrabba um meira en 20%.