Í tóbaksreyk eru a.m.k. 43 efni í sígarettum sem geta valdið krabbameini, þeirra á meðal nítrósamín. Þessi efni geta valdið varanlegum breytingum á erfðaefninu í frumunum. Smám saman geta frumurnar misst stjórn á eigin vexti svo að þær fara að skipta sér hömlulaust. Þá vaxa þær inn í nærliggjandi vefi og þrengja að þeim. Krabbameinsfrumurnar geta líka dreift sér út í líkamann með blóðrásinni og eftir eitlakerfinu.


Reykingamaðurinn er í helmingi meiri hættu á að deyja úr krabbameini en sá sem reykir ekki. Stórreykingamaður er í fjórfaldri hættu. Að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er tóbaksnotkun einn helsti áhættuþáttur krabbameins og á sök á 22% allra krabbameinsdauðsfalla í heiminum og 71% dauðsfalla vegna lungnakrabbameins.


Krabbameinin sem reykingar valda oftast eru:

lungnakrabbamein
krabbamein í munnholi
krabbamein í barka

Lungnakrabbamein

Lungnakrabbi er mjög alvarlegur sjúkdómur og jafnframt eitt algengasta krabbamein í veröldinni. Aðeins u.þ.b. 10% þeirra sem greinast með sjúkdóminn eru lifandi 5 árum síðar. Næstum 90% þeirra sem fá lungnakrabba reykja. Árlega deyja um 1,5 milljónir manna af völdum lungnakrabbameins. Í Evrópu einni létust til að mynda um 350.000 manns árið 2008 sökum lungnakrabbameins. Sjá nánar t.d. á: www.alphagalileo.org.

Skýr tengsl eru á milli hversu mikið og hversu lengi fólk hefur reykt og þess hve mikið er um krabbamein meðal þessa fólks. Þeir sem hefja reykingar fyrir 15 ára aldur eru í nærri tuttugu sinnum meiri hættu á að fá lungnakrabba en þeir sem reykja ekki. Hjá þeim sem hófu reykingar eftir 25 ára aldur er hættan u.þ.b. fimmföld. Því meira sem reykt er því meiri er hættan. Kona sem reykir 10-20 sígarettur á dag eykur hættuna á að deyja úr lungnakrabba u.þ.b. sextánfalt miðað við konu sem reykir ekki og 20-30 sígarettur á dag gera hættuna 28 sinnum meiri.

Hættan á að fá krabbamein minnkar smám saman í kjölfar þess að menn hætta að reykja. Hins vegar breytir það að hætta ekki batahorfum hjá krabbameinssjúklingum svo öruggt sé.